Áhugaverðir staðir

Margir skemmtilegir og áhugaverðir staðir eru í nágrenni okkar og því er vert að benda fólki á að ef það hefur áhuga á því að skoða, söfn, styttur, kastala, kirkjur og margt fleira þá er um að gera að skoða þessa möguleika.

Murcia

(45 min akstur) er gömul og falleg borg. Þar er einstaklega falleg Dómkirkja með miklum fjölda listaverka. Þar er hið víðfræga Salzillo-safn sem er tréskurðar- og málverkasafn með verkum fá síðustu 500 árum. Þar er einnig Museo de la Belle Artes þar sem allir frægustu listmálarar Spánverja eiga verk. Eftir að hafa skoðað þessa staði sem eru allir í göngufæri hver við annan í miðborginni, þá er einstaklega skemmtilegt að setjast niður á torginu við kirkjuna, fá sér hressingu og skoða mannlífið.

Elche

(35 min akstur) hefur verið kölluð pálmatrjáa höfuðborg Evrópu. Þar eru margar milljónir af pálmatrjám út um alla borg. Þar er verulega fallegur Lystigarður með mikið af gróðri, styttum, listaverkum og leiktækjum fyrir börn. Í garðinum er á nokkurra tíma fresti, 10 min myndbandssýning þar sem allir athyglisverðustu staðir í borginni og nágrenni eru kynntir. Sérstaklega er vert að benda á Dómkirkjuna sem er 400 ára gömul og prýdd fjölda listaverka og gersema. Mjög gaman er að fara upp þröngan hringstiga upp á tæplega 50 metra háan klukkuturninn þar sem ótrúlegt útsýni er yfir borgina.

Orihuela

(20 min akstur) er fallegur gamall smábær rétt hjá Elche. Þar er Panalcalva-höllin sem er virkilega falleg og er einn af þeim stöðum sem þeir sem koma á svæðið mega alls ekki sleppa að skoða. Einnig er Dómkirkjan í bænum glæsileg eins og í raun allar kirkjur á svæðinu. Í bænum er mikið um þröngar götur með fjölda búða og veitingastaða og er það mikil upplifun að þvælast þar um.

Rojales

( 20 min akstur) er smábær sem er um 10 km norður af Habaneras verslunarmiðstöðinni. Í hlíðinni fyrir ofan bæinn er að finna svokallaða listamannahella. Þar hafa listamenn grafið sér nokkurs konar hella inn í hlíðina og útbúið sér þar vinnustofur og jafnvel heimili. Hægt er að fá að fara inn í flestar vinnustofurnar og skoða verk listamannanna. Einnig er þar mjög áhugavert hús sem er alþakið skeljum og litlum flísum bæði að utan og innan sem gaman er að skoða. Hægt er að kaupa minjagripi og fá sér veitingar á nokkrum stöðum í þorpinu.

Alicante

( 50 min akstur) hefur upp á margt athyglisvert að bjóða. Vert er að benda fólki á að rölta um götuna niður við sjóinn og skoða allan þann mikla fjölda af skemmtisnekkjum og bátum sem þar eru. Yfir borginni gnæfir Santa Barbara-kastalinn sem nauðsynlegt er að skoða og að auki er þar einstakt útsýni yfir borgina og a llt svæðið í kring.
Mjög fínt er að versla í Alicante. Verðlagið er gott og mikið úrval verslana í miðborginni og hægt er að versla allt milli himins og jarðar eða eins og sannri stórborg sæmir. Stór versunarmiðstöð er í borginni sem heitir Gran Via og hýsir hún allar helstu tískuvöruverslanirnar. Svo má ekki gleyma að minnast á Nike outlet búðina sem er rétt fyrir utan Alicante. Þar er boðið upp á Nike fatnað á mjög góðu verði.

Altea

( 80 min akstur) er fallegur bær skammt frá Benidorm. Þar uppi á hæðinni er að finna mjög fallega kirkju sem vert er að skoða og gaman er að þræða þröngar göturnar þarna uppi á hæðinni. Fjöldi listaverkabúða er í þessum götum og nokkrir góðir veitingastaðir og viljum við sérstaklega mæla með veitingastaðnum Oustau, þar sem er bæði frábær þjónusta og mjög góður matur.

Algar fossar

(80 mín akstur) eru stórkostleg náttúruperla upp í fjöllunum fyrir ofan Altea en ekin er sama leið eins og farið er upp í fjallaþorpið Guadalest. Það er því mjög góð dagsferð að heimsækja fyrst Guadalest og fara síðan í Algar fossana. Þar er hægt að synda í tæru og köldu vatninu og hoppa af klettum ofan í djúpa hyli og skemmta sér konunglega. Göngustígar eru meðfram fossunum þar sem hægt er að ganga upp með ánni og finna sér minni laugar til að synda í. Það er ekki auðvelt að finna þvílíka náttúruperlu sem þessa.
Þegar maður kemur að fossunum eru nokkrir veitingastaðir, barir, lítið járnbrautar safn og minjagripabúðir sem selja ýmsan varning og þar á meðal „nisperos“ þar sem það eru mjög margir nispero lundir í nágrenni fossanna. Mikil gróðursæld er í nágrenni fossanna og hægt að ganga að safninu “Arboretum” sem er náttúrulegur kryddjurtagarður þar sem hægt er að finna flestar kryddjurtir miðjarðarhafsins. Þar er líka lífrænt safn með lækningar- og aromatic jurtum, olíum og ilmvötnum. Hægt er að kaupa þær vörur sem þar er verið að sýna.
Við fossana er einnig búið að útbúa góða aðstöðu fyrir fólk þar sem upplagt er að borða nestið sitt en þar eru borð, bekkir og grillaðstaða ásamt klósettum og sturtum.

Fjallaþorpið Guadalest

( 90 min akstur) er skammt norðan við Benidorm. Þar uppi í hlíðunum er einstakt fjallaþorp sem varðveitt hefur verið í sinni upprunalegu mynd að mestu. Það er mjög tilkomumikið að aka leiðina upp að Guadalest en ekið er sem leið liggur framhjá „Terra Metica“ skemmtigarðinum og afleggjaranum niður til Benidorm og beint upp til fjalla. Vegurinn til Guadalest er malbikaður en liggur oft bugðóttur utan í bröttum hlíðum fjallsins. Það er mjög eftirminnilegt að aka þessa leið. Þar er hægt að skoða 300 ára gamalt gríðarlega stórt hús sem var heimili Ordeu-ættarinnar í margar aldir. Þar inni er búið að koma upp eins konar minjasafni með alls kyns húsgögnum, listaverkum og áhöldum frá þessum tíma. Hægt er að ganga upp á hæðina fyrir ofan húsið og horfa þaðan yfir þorpið og dalina í kring. Mikill fjöldi af minjagripaverslunum er í þorpinu sem og fjöldi veitingastaða þar sem hægt er að setjast niður og fá sér hressingu.

Smábærinn Busot

(60 min akstur) er um 20 km fyrir norðan Alicante. Þar uppi í hlíðunum er að finna einstakan dropasteinahelli Canalobre. Leiðin að hellunum er víðast hvar vel merkt en gott er að setja stefnuna á Busot ef ekið er eftir korti. Stærsti hellirinn “Cuevas del Canalobre” er um 150 metrar að lengd og þar eru miklir dropasteinar eða ofvaxin krýlukerti. Þessi stóri hellir sem er vel upplýstur í miklum litum hefur einskæran hljómburð og þar eru oft haldnir tónleikar og hátíðir en í hellinum er rúmgott svið. Inngangurinn í hellana er hátt uppi í hlíðum “Cabezón de Oro (Golden Head) eða í 700 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan hafa gestir hellana mikið útsýni yfir Alicante hérað og til Miðjarðarhafsins. Þó skal það ítrekað að yfir hásumarið getur verið mikil mannmergð á svæðinu og loftslagið þurrt og heitt þannig að gott er að hafa vatnflöskuna sér við hlið.
Þegar komið er inn í dropahellana er leiðsögumaður sem leiðir gestina í hópum um hellana um segir frá öllu því sem augum ber um leið og gengið er um hlykjótta 170 metra leið um göngustíga hellana. Þess má geta til fróðleiks að þessi stórmerkilegu dropasteinar hafa myndast á milljónum ára með þeim hætti að vatnið sem dropar niður innheldur óvenju mikið magn steinefna og við það hefur vatnið umbreyst í þessar steinastrýtur.  Nokkrir göngustígar eru í næsta umhverfi við hellana og gaman er að ganga þar um.  Hellarnir eru opnir allt árið um kring.