Site logo

Áhugaverðir staðir

Margir skemmtilegir og áhugaverðir staðir eru í nágrenni okkar og því er vert að benda fólki á að ef það hefur áhuga á því að skoða, söfn, styttur, kastala, kirkjur og margt fleira þá er um að gera að skoða þessa möguleika.

Spánarferðir 

Ertu þú á leiðinni til Spánar á næstunni?
Langar þig að upplifa eitthvað skemmtilegt?
Við hjá Spánarferðum getum getum sérhannað ferðina þína☀️
 
Dagsferðir í fallegustu strandar og fjallabæina á Costa Blanca svæðinu. Vínsmökkun eða heimsókn á ólífuakra.
Fjallgöngur, Hjólaferðir, Sjóbretti, Siglingar og allt hitt sem þér dettur í hug.
Tilvalið fyrir stórafmæli, vinkonu/vinaferðir og svo margt fleira
 
Segðu okkur hvað þú ert með í huga og við gerum það að veruleika.
Sendið okkur fyrirspurn: info@spanarferdir.is

Algar fossar

Stórkostleg náttúruperla upp í fjöllunum fyrir ofan Altea en ekin er sama leið eins og farið er upp í fjallaþorpið Guadalest. Það er því mjög góð dagsferð að heimsækja fyrst Guadalest og fara síðan í Algar fossana. Þar er hægt að synda í tæru og köldu vatninu og hoppa af klettum ofan í djúpa hyli og skemmta sér konunglega. Göngustígar eru meðfram fossunum þar sem hægt er að ganga upp með ánni og finna sér minni laugar til að synda í. Það er ekki auðvelt að finna þvílíka náttúruperlu sem þessa.
Þegar maður kemur að fossunum eru nokkrir veitingastaðir, barir, lítið járnbrautar safn og minjagripabúðir sem selja ýmsan varning og þar á meðal “nisperos” þar sem það eru mjög margir nispero lundir í nágrenni fossanna. Mikil gróðursæld er í nágrenni fossanna og hægt að ganga að safninu “Arboretum” sem er náttúrulegur kryddjurtagarður þar sem hægt er að finna flestar kryddjurtir miðjarðarhafsins. Þar er líka lífrænt safn með lækningar- og aromatic jurtum, olíum og ilmvötnum. Hægt er að kaupa þær vörur sem þar er verið að sýna.
Við fossana er einnig búið að útbúa góða aðstöðu fyrir fólk þar sem upplagt er að borða nestið sitt en þar eru borð, bekkir og grillaðstaða ásamt klósettum og sturtum.

Fjallaþorpið Guadalest

Skammt norðan við Benidorm uppi í hlíðunum er einstakt fjallaþorp sem varðveitt hefur verið í sinni upprunalegu mynd að mestu. Það er mjög tilkomumikið að aka leiðina upp að Guadalest en ekið er sem leið liggur framhjá “Terra Metica” skemmtigarðinum og afleggjaranum niður til Benidorm og beint upp til fjalla. Vegurinn til Guadalest er malbikaður en liggur oft bugðóttur utan í bröttum hlíðum fjallsins.

Það er mjög eftirminnilegt að aka þessa leið. Þar er hægt að skoða 300 ára gamalt gríðarlega stórt hús sem var heimili Ordeu-ættarinnar í margar aldir. Þar inni er búið að koma upp eins konar minjasafni með alls kyns húsgögnum, listaverkum og áhöldum frá þessum tíma.
Hægt er að ganga upp á hæðina fyrir ofan húsið og horfa þaðan yfir þorpið og dalina í kring.  Mikill fjöldi af minjagripaverslunum er í þorpinu sem og fjöldi veitingastaða þar sem hægt er að setjast niður og fá sér hressingu.

Altea

Altea er fallegt, lítið þorp sem rís aðeins 61 metra yfir sjávarmáli.  Þorpið einkennist af hvítum húsum og þykir minna á Grikkland, enda er það kallað Santorini of Spain, þar búa um 22.000 manns.

Í þorpinu er einstaklega falleg kirkja sem ber nafnið Parroquia De Nuestra Señora Del Consuelo. Kirkjan er opin almenningi. Ekkert kostar að skoða kirkjuna en hægt er að leggja fram frjálst framlag í kassa sem er við anddyri.

Litlar, þröngar götur, falleg hvít hús og litrík blóm. Mikið er um skemmtilegar verslanir og gallerí. Litlir veitingastaðir, barir, kaffihús og annað sem gleður.

Á kvöldin lifnar yfir veitingastöðum og börum og borð og stólar eru dregin út á götu.

Fjöldi listaverkabúða er í þessum götum og nokkrir góðir veitingastaðir og viljum við sérstaklega mæla með veitingastaðnum Oustau, þar sem er bæði frábær þjónusta og mjög góður matur.

Dropasteinahellar

Smábærin Busot er um 20 km fyrir norðan Alicante, þar uppi í hlíðunum er að finna einstakan dropasteinahelli Canalobre. Leiðin að hellunum er víðast hvar vel merkt en gott er að setja stefnuna á Busot ef ekið er eftir korti. Stærsti hellirinn “Cuevas del Canalobre” er um 150 metrar að lengd og þar eru miklir dropasteinar eða ofvaxin krýlukerti. Þessi stóri hellir sem er vel upplýstur í miklum litum hefur einskæran hljómburð og þar eru oft haldnir tónleikar og hátíðir en í hellinum er rúmgott svið.

Inngangurinn í hellana er hátt uppi í hlíðum “Cabezón de Oro (Golden Head) eða í 700 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan hafa gestir hellana mikið útsýni yfir Alicante hérað og til Miðjarðarhafsins.

Þess má geta til fróðleiks að þessi stórmerkilegu dropasteinar hafa myndast á milljónum ára með þeim hætti að vatnið sem dropar niður innheldur óvenju mikið magn steinefna og við það hefur vatnið umbreyst í þessar steinastrýtur.

Alicante

Alicante hefur upp á margt athyglisvert að bjóða. Vert er að benda fólki á að rölta um götuna niður við sjóinn og skoða allan þann mikla fjölda af skemmtisnekkjum og bátum sem þar eru. Yfir borginni gnæfir Santa Barbara-kastalinn sem nauðsynlegt er að skoða og að auki er þar einstakt útsýni yfir borgina og a llt svæðið í kring.
Mjög fínt er að versla í Alicante. Verðlagið er gott og mikið úrval verslana í miðborginni og hægt er að versla allt milli himins og jarðar eða eins og sannri stórborg sæmir. Stór versunarmiðstöð er í borginni sem heitir Gran Via og hýsir hún allar helstu tískuvöruverslanirnar. Svo má ekki gleyma að minnast á Nike outlet búðina sem er rétt fyrir utan Alicante. Þar er boðið upp á Nike fatnað á mjög góðu verði.

Elche

Elche hefur verið kölluð pálmatrjáa höfuðborg Evrópu. Þar eru margar milljónir af pálmatrjám út um alla borg. Þar er verulega fallegur Lystigarður með mikið af gróðri, styttum, listaverkum og leiktækjum fyrir börn. Í garðinum er á nokkurra tíma fresti, 10 min myndbandssýning þar sem allir athyglisverðustu staðir í borginni og nágrenni eru kynntir.

Sérstaklega er vert að benda á Dómkirkjuna sem er 400 ára gömul og prýdd fjölda listaverka og gersema. Mjög gaman er að fara upp þröngan hringstiga upp á tæplega 50 metra háan klukkuturninn þar sem ótrúlegt útsýni er yfir borgina.

Murcia

Murcia er gömul og falleg borg. Þar er einstaklega falleg Dómkirkja með miklum fjölda listaverka. Þar er hið víðfræga Salzillo-safn sem er tréskurðar- og málverkasafn með verkum fá síðustu 500 árum. Þar er einnig Museo de la Belle Artes þar sem allir frægustu listmálarar Spánverja eiga verk.

Eftir að hafa skoðað þessa staði sem eru allir í göngufæri hver við annan í miðborginni, þá er einstaklega skemmtilegt að setjast niður á torginu við kirkjuna, fá sér hressingu og skoða mannlífið.

Murcia er þekkt fyrir mikla Tapas menningu og er mjög gaman að rölta milli staða um þröngar götur og allskonar torg.

Cuevas del Rodeo

Fyrir ofan bæinn Rojales má finna hellaþorp.
Snemma á 18. öld kom hópur námumanna frá Murcia til Rojales til að vinna við landbúnað. Þeir áttu ekki mikinn pening en höfðu þó reynslu af útskurði á steinum. Ekki leist þeim vel á þá aðstöðu sem boðið var upp á fyrir verkafólk. Þá kom þekkingin að góðum notum.  Þeir hófust handa við að grafa út hella og útbúa sér dvalarstað.  Þykkir steinveggirnir virkuðu sem einangrun og héldu heitum sólargeislum úti svo gott og svalt var inni á sumrin. Engin þörf var á hitun yfir vetrartímann.
 
Ójöfnu hvítkalkaðir veggirnir skapa einstök og falleg rými sem sveitarfélag Rojales ákvað að gefa nýjan tilgang.  Fimmtán hellar á svæðinu hýsa nú handverksstofur og markaði sem selja verk listamanna og handverksmanna.

Húsin eru opin fyrsta hvern sunnudag í mánuði frá 10-15 og verk listamannanna eru til sýnis og jafnvel sölu.
©Viva Fortuna ehf. kt: 510315-2270
Verslunarmiðstöðin Fjörðurinn – 2.hæð, Fjarðargötu 13-15, 220 Hafnarfjörður
Sími + 354 558-5858 – bokun@sumarhusaspani.is
Fylgdu okkur á samfélagsmiðlum