Golf

Fyrir þá sem hafa áhuga á golfi þá er upplagt að leggja leið sína til okkar á Cabo Roig svæðið á Costa Blanca ströndinni. Þar er auðvelt að sameina það að fara í golf og eiga skemmtilegt frí í einstakri veðurblíðu.

Það má með sanni segja að Costa Blanca svæðið sé draumur golfara vegna þess að þar er mikill fjöldi frábærra golfvalla þar sem allir geta fundið skemmtilega velli við sitt hæfi. Margir vallanna á svæðinu eru glæsilega hannaðir, þar sem fer saman fallegt landslag, mikill trjágróður og ótrúlegar vatnshindranir. Tveir þekktustu golfarar Spánar, Seve Ballesteros og Jose Maria Olazabal hafa tekið þátt í hönnun margra þeirra. Vellirnir eru mjög mismunandi ,opnir, þröngir, stuttir, langir og því mjög skemmtilegt að spila á sem flestum til að fá sem mesta fjölbreytni.
Það eru 3 mjög þekktir golfvellir í innan við 5 km fjarlægð frá húsunum okkar í Cabo Roig, Campoamor, Las Ramblas og Villamartin. Aðrir 10 vellir eru svo innan við 20 mínútna akstur frá húsunum: La Finca, Roda, Mosa Trajectum og La Serena.

Stutt frá húsunum er glæsileg Golfbúð (Golf Factory sales outlet) þar sem hægt er að kaupa hreinlega allt til golfiðkunar. Þar er líka hægt að panta tíma á teig á öllum völlum á svæðinu með afslætti og leigja sér golfsett. Þjónustan í búðinni er til fyrirmyndar og mælum við hiklaust með að golfarar notfæri sér hana.

Campoamor 18 holur, par 72, 6203 m

Skemmtilegur sveitavöllur sem liggur í tveimur dölum sem gerir það að verkum að það er yfirleitt logn á vellinum. Völlurinn er frekar opinn og því hægt að slá langt á honum en flatirnar eru mjög hraðar sem gerir hann erfiðan. Glæsilegt klúbbhús er við völlinn og þar er að finna gott veitingahús.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallararins: www.lomasdecampoamor.es/

Las Ramblas 18 holur, par 72, 5914 m

Mjög erfiður völlur þar sem brautirnar eru þröngar með miklum trjágróðri í hæðóttu landslagi. Mikið er um vatnshindranir sem gera golfurum erfitt um vik. Þetta er völlur sem golfarar annað hvort elska eða hata. Eitt er víst að það er nauðsynlegt að vera með nóg af golfkúlum.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.grupoquara.com

Villamartin 18 holur, par 72 6132 m

Erfiður völlur í hæðóttu landslagi sem reynir mjög á hæfni golfarans og er óhætt að segja að það þurfi að nota allar kylfurnar í pokanum. Þessi völlur hefur verið notaður á Evrópsku mótaröðinni.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.grupoquara.com

La Finca 19 holur, par 72, 6394 m

Nýr völlur sem er sennilega einn skemmtilegasti völlurinn á svæðinu. Erfiðar vatnshindranir, þúsundir pálmatrjáa og fjölbreytilegt landslag gera það að verkum að þetta er völlur sem allir alvöru golfarar verða að spila á. Flötin á sjöundu braut er umkringd glompum, fimmta og sjötta braut liggja meðfram fallegu vatni og það eru nokkrir fossar á vinstri hönd sem setja mikinn svip á völlinn.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.grupoquara.com

Roda 18 holur, par 72, 6077 m

Mjög fallegur völlur í glæsilegu landslagi. Skemmtilegasta brautin er sú sjöunda en þar er flötin á eyju sem er alveg umkringd vatni og það eru bara fjórar brautir sem eru ekki með vatnshindrunum.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.rodagolfcourse.com

Mosa Trajectum 27 holur, 3 x 9 holur og stuttur kennsluvöllur

Þarna er í raun hægt að spila þrjá mismunandi velli sem eru fjölbreyttir og skemmtilegir. Mikið er af trjám og vatnshindrunum sem gera völlinn mjög áhugaverðan. Fyrir nokkrum árum var lokamót Evrópumótaraðarinnar á þessum velli.  Nánari upplýsingar eru á heimasíðu vallarins: www.thekey.es

La Serena 18 holur, par 72, 6168 m

Þessi glæsilegi völlur hefur þá sérstöðu að hann er alveg niður við Costa Blanca ströndina við bæinn Las Alcazares. Mikill trjágróður er á vellinum, stórar og erfiðar glompur og sérstaklega stórar flatir þar sem sú stærsta er meira en 100 fermetrar. Glæsilegt klúbbhús er við völlinn og þar er mjög gott veitingahús.