Skilmálar

Skilmálar þessir gilda um allar bókanir gerðar í gegnum Sumarhús á Spáni (SHS).

Með því að samþykkja skilmála þessa er verið að koma á beinu samnings sambandi við Fasteignareiganda(FE) sem leigutaki ætlar að leigja af. SHS er ekki aðili að samningi þessum en kemur samningsaðilum saman á tryggan hátt.
Tilgangur SHS er að greiða fyrir leigu á orlofseignum og leiða saman samningsaðila í gegnum vefsíðu sína. Skilmálar þessir hafa verið samþykkt af FE og hafa þeir gefið SHS fullt umboð til þess að gera leigusamning byggðan á þessum skilmálum.

Þegar gerð er „Fyrirspurn/beiðni um bókun“ á leigueign mun starfsfólk okkar leita eftir endanlegri staðfestingu frá eiganda viðkomandi leigueignar fyrst. Þegar fyrirspurn hefur verið staðfest af eiganda sendum við upplýsingar til viðskiptavinar um hvernig greiðslu staðfestingargjalds er háttað ásamt bókunarsamning.

1. Bókanir og greiðslur

 • Sá sem lýkur bókunarferlinu verður að vera eldri en 25 ára, og a.m.k. einn viðskiptavinur sem dvelur í fasteign skal vera yfir 25 ára aldri.
 • Til að staðfesta pöntun skal leigutaki greiða 50% af leiguverði í gegnum örugga greiðsugátt Rapyd.
 • Með samþykki og greiðslu er kominn á samningur milli leigutaka og FE um skammtímaleigu. Engin endurgreiðsla mun eiga sér stað á þessum hluta ef hætt er við leigu.
 • Fullnaðargreiðslu fyrir leigu þarf að greiða eigi síðar en 6 vikum fyrir komutíma.

2. Leiguverð

 • Leiguverð er samkvæmt verðskrá á heimasíðu hverju sinni. Innifalið í leiguverði er 15 til 35 kWh (fer eftir stærð leigueignar) stundir af rafmagni pr. dag. Greitt er fyrir umfram notkun á rafmagni – dregið af tryggingafé.

3. Koma og brottför

 • Leigutími hefst kl. 16.00 á upphafsdegi leigudags og endar kl. 12.00 á lokadegi leigudags.
 • Samþykkja má annan brottfaratíma í samráði við FE ef ekki þarf að gera húsið klárt samdægurs fyrir næsta leigutaka.
 • Ef leigutaki skilar ekki af sér eign á réttum tíma hefur FE heimild til að rukka leigutaka um 30.000 kr. vegna aukins kostnaðar sem hlýst af viðkomandi seinkun.

4. Breytingar og forföll

 • Ef breyta þarf bókun eftir staðfestingu bókunar skal hafa samband við SHS. SHS mun kappkosta að koma á móts við leigutaka um breytingu á bókun en getur ekki tryggt að slík beiðni verði uppfyllt án kostnaðar.
 • Leigutaki ber sjálfur ábyrgð á sínum leigutíma og ef til seinkunar eða forfalla kemur vegna ferða hans er það á hans eigin ábyrgð.

5. Þrif

 • Það er hluti af skilmálunum að leigutakar greiði fyrir brottfararþrif og þvott á líni í lok dvalar €100-250 (fer eftir stærð leigueignar).
 • Húsnæðið skal vera hrein þegar leigutaki kemur, vera með hreinum rúmfatnaði, handsápu, uppþvottalegi, salernispappír og handklæðum.
 • Telji leigutaki aðkomu ábótavant er hann tekur við húsnæðinu skal hann tafarlaust gera viðvart svo hægt sé að gera úrbætur. Að öðrum kosti skoðast að leigutaki telji aðkomu fullnægjandi.
 • Þótt greitt sé fyrir brottfararþrif gildir sú regla að leigutaki fjarlægir alla matarafganga, hendir öllu rusli úr húsinu og skilur við öll eldunar- og mataráhöld hrein og tilbúin til notkunar fyrir næsta leigutaka.  Á þetta einnig við um útigrill þar sem þau eru til staðar.

6. Tryggingar og lyklaafhending

 • Sem tryggingu fyrir verulegri misnotkun á eigninni og verulegum skemmdum verður að leggja fram tryggingar €300-€500 (fer eftir leigueign). Einnig er þjónustugjald €30 á allar bókanir.
 • Ekki er verið að leggja fram tryggingu vegna þess að glös, diskar og annað lítilsháttar getur brotnað heldur fyrir verulegum skemmdum eða eyðileggingu.
 • Eigandi eignarinnar eða umsjónaraðili áskilur sér rétt að taka af framangreindri upphæð ef slík misnotkun eða eyðilegging hefur átt sér stað á eigninni.
 • Trygging er endurgreidd til leigjandans þegar lyklum hefur verið skilað eigi síðar en 10 dögum eftir heimkomu. Umsjónaraðili á Spáni fer yfir leigueign og lætur eiganda vita ef eitthvað er.
 •  Lyklar eru afhentir á Íslandi eða Spáni (fer eftir leigueign).

7.  Skyldur og skuldbindingar leigutaka

 • Leigutaki skuldbindur sig til að ganga um eign samkvæmt reglum hússins.
 • Verði tjón af völdum leigutaka eða gesta hans er leigutaki ábyrgur fyrir skemmdum og ber að greiða viðgerð eða bætur á viðkomandi tjóni.
 • Leita skal til þriðja aðila til að meta og gefa raunhæft verð í tjónið sem skal bætt að fullu af leigutaka. Á þessi liður eingöngu við ef um óeðlilega notkun er að ræða af völdum ásetnings eða gáleysis.
 • Fjöldi einstaklinga sem dvelja í fasteign má ekki fara yfir hámarksfjölda er kemur fram á upplýsingasíðu fasteignar á vefsíðu SHS. Börn 2 ára eða yngri teljast ekki til hámarksfjölda.
 • Gestir eru leyfðir á daginn en þeim er ekki leyft að gista yfir nótt.
 • Gæludýr er ekki leyfð og reykingar eru bannaðar innandyra.
 • Virða ber nágranna og hávaða skal lágmarka á öllum tímum.
 • Leigutakar eru beðnir að hafa í huga að húseigendur eru ábyrgir fyrir hegðun þeirra gagnvart nágrönnum og húsfélagi.
 • Ef liggur fyrir að nágrannar verða fyrir óþægindum áskilur FE sér rétt til að fara fram á að leigutaki yfirgefi fasteign án rétts til að krefjast hvers konar bóta.
 • Ganga skal vel um hið leigða húsnæði og halda því hreinu á meðan dvöl stendur.
 • Sé loftkæling notuð skulu dyr og gluggar vera lokuð annars kemur kælingin ekki að neinu gagni og neytir ómælds rafmagns. Vinsamlega hafið í huga að rafmagn er mjög dýrt á Spáni og viljum við að leigjendur hafi það í huga við notkun á loftkælingunni – ef óeðlileg notkun á sér stað geta gestir átt von á því að þurfa að greiða aukalega fyrir rafmagnið.
  Einnig er fólk beðið að varast að setja ísskáp á hæstu stillingu. Kemur slíkt ekki að gagni og styttir líftíma ísskápsins.
 • Við hverja leigueign er sundlaug og skulu leigutakar fara varlega og fylgjast vel með börnum sínum.
 • Lyklakerfið í leigueignum er öðruvísi á Spáni en á Íslandi, í mörgum tilfellum er ekki hurðahúnn að utanverðu og því ekki hægt að opna aðalhurð að utanverðu nema með lykli þó hurð sé í raun ólæst. Ef lykill læsist inni í húsinu þarf leigutaki að greiða fyrir lyklasmið.

8. Skyldur og skuldbindingar FE

 • FE er ábyrgur fyrir því að allar upplýsingar um fasteign til SHS séu réttar.
 • FE er ábyrgur fyrir því að leiga á fasteign sé í samræmi við öll staðbundin eða innlend lög þar með talin lög um um heilsu, öryggi og tryggingar.
 • FE er ekki ábyrgur fyrir neinum beinum eða óbeinum kostnaði, tjóni eða tapi stofnað til af leigutaka eða öðrum gestum fyrir, meðan og að eftir dvöl leigutaka lýkur.
 • FE getur ekki ábyrgst bilanir eða truflanir á þjónustu eða búnaði í fasteign, né truflun vegna viðhalds sem fara fram í öðrum hluta sameignarinnar. Berist tilkynning um slíkt mun FE reyna að bregðast við slíkum málum innan hæfilegs tíma.

9. Skyldur SHS

 • Það er á ábyrgð SHS að bjóða upp á vefsíðu til að bóka fasteignir í einkaeigu. SHS er ábyrgt fyrir virkni vefsíðunnar og innihaldi hennar.
 • SHS ber ekki ábyrgð á neinum aðgerðum sem gerðar eru af öðrum hvorum aðila leigusamnings eftir að staðfesting um bókun hefur verið gerð.

10. Slys, veikindi og andlát

 • Leigutaki skuldbindur sig til að halda FE og SHS skaðlausum af öllum kostnaði.
 • Leigutaki er á Spáni á eigin vegum og ber því fulla ábyrgð á sér og gestum sínum. Á það við um öll hugsanleg slys, veikindi, andlát o.s.frv. SHS og FE eru undanþegin allri ábyrgð á því sem gæti komið fyrir leigutaka og gesti viðkomandi.
 • Bent er sérstaklega á að gæta fyllstu varúðar við sundlaugar, hálum flísum, svölum, stigum, loftkælingu, raftækjum, sturtum og öðru sem hætta gæti stafað af.

11. Höfundarréttur

 • Allt efni á heimasíðu SHS tilheyrir SHS og er allur höfundarréttur áskilinn.
 • Efnið má hvorki afrita né dreifa án skriflegs samþykkis.
 • SHS gerir fyrirvara um innsláttar- og prentvillur á útgefnu efni hvort sem er á pappír eða á vefsíðu.

12. Persónuvernd

 • SHS mun leitast við að standa vörð um friðhelgi notenda.
 • Persónuupplýsingum sem safnað er, munu aðeins vera notaðar til að bæta þjónustuna og sníða hana að þörfum notenda.
 • Hvorki SHS né FE mun selja, skipta eða leigja persónuupplýsingar til þriðja aðila eða stofnana.
 • SHS áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum fyrirvaralaust.