Nánari lýsing

Aldeas III – Casa Alba nr. 23

Búið er að taka húsið töluvert í gegn og skipta út húsgögnum og fleira.  Það er á mjög góðum stað í Cabo Roig þar sem stutt er að rölta niður á ströndina og á göngugötuna í hverfinu þar sem er mikið mannlíf alla daga.  Consum matvöruverslunin er í göngufæri og einnig er markaður á fimmtudögum í hverfinu. Húsið er með gistiplássi fyrir hámark fjóra fullorðna og tvö börn.

Á jarðhæð er falleg stofa með borðstofu og þar er góður tungusófi sem einnig er svefnsófi fyrir tvö börn, í stofunni er snjallsjónvarp svo gestir geta t.d. notað sinn Netflix aðgang. Loftkæling og loftvifta er í stofunni og í húsinu er WiFi internet. Play station 3 leikjatölva er til staðar með FIFA 15.  Út frá stofunni er hægt að ganga beint út á verönd fyrir framan íbúðina þar sem eru borð og stólar.  Bjart og vel búið eldhús er á jarðhæð með uppþvottavél, örbylgjuofni, kaffivél, samlokugrilli, handþeytara, brauðrist, hraðsuðukatli, ísskáp með frystihólfi og öllum helstu áhöldum til matargerðar.  Borðbúnaður í húsinu er fyrir 6 manns og einnig er matarstóll fyrir barn.  Út frá eldhúsi er hægt að ganga út á flísalagða verönd sem er að hluta til yfirbyggð þar er þvottavél, útihúsgögn, gasgrill og frábær aðstaða til að borða úti.

Svefnherbergin eru tvö

Hjónaherbergi er á 2. hæð með hjónarúmi, loftkælingu, fataskáp og útgengi á litlar svalir með fallegu útsýni yfir garðinn, á svölunum eru borð og stólar.
Gestaherbergi er á 2. hæð með loftkælingu, tveimur einstaklingsrúmum og fataskáp.
Sængur, koddar og rúmföt fylgja og einnig er barnaferðarúm fyrir ungabarn.

Baðherbergin eru tvö

Á jarðhæð er lítið salerni með WC og vaski.
Á 2. hæð er gott baðherbergi með WC, vaski  og baðkari með góðri sturtuaðstöðu.
Baðhandklæði fyrir hvern gest þ.e.a.s. eitt stórt og eitt lítið fylgja hverri leigu, en gestir eru þó beðnir að koma með sín eigin handklæði til sólbaða og til að taka með niður á strönd. Hárblásari er í húsinu.

Svalir, garður og sameiginleg sundlaug

Á annarri hæð eru svalir út frá svefnherbergi með útsýni til sjávar.  Á þriðju hæð hússins eru góðar þaksvalir með útsýni til sjávar. Sólbekkir eru til afnota fyrir gesti.
Út frá verönd fyrir framan húsið er farið í sameiginlega sundlaugargarðinn. Þar er stór sundlaug með nuddpotti, sturtur og gott pláss fyrir sólbekki.