Nánari lýsing
Falleg íbúð með svefnplássum fyrir 6 manns, auk barnarúms.
Íbúðin er staðsett í Quesada i Rojales. Rojales er ekki langt frá Torrevieja, en kjarninn sem íbúðin er í er rétt ofan við saltvötnin. Ekki er nema 35 mínútna akstur frá flugvellinum í Alicante. Íbúðin er í fjögurra íbúða húsi í glænýjum kjarna sem samanstendur af 12 eins húsum. Húsin hafa sameiginlegan aðgang að fallegum sundlaugargarði sem húsin eru byggð í kring um. Svæðið er lokað fyrir almenningi. Mjög vel búin með öllu því helsta sem maður þarf til að hafa það huggulegt.
Eldhús, borðstofa og stofa
Alrýmið er bjart og fallegt með góðu og vel útbúnu eldhúsi. Í eldhúsinu er spanhelluborð, bakaraofn, uppþvottavél og góður tvískiptur ísskápur með frystihólfi, Dolche Gusto kaffivél, blandari og brauðrist. Borðbúnaður er fyrir 9 manns og öll helstu áhöld til eldamennsku. Borðstofan er með hringlaga borðstofuborði sem stendur við fallegan gólfsíðan glugga.
Stofan er með mjög góðum svefnsófa. Auk þess eru tveir stakir stólar. 55“ snjallsjónvarp er í stofunni og afruglari með aðgangi að fjölda sjónvarpsstöðva. Úr stofunni er gengið út á góðar svalir sem snúa út að sundlaugargarðinum.
Á svölunum er kaffiborð og tveir stólar þar sem huggulegt er að setjast út með morgunverðinn.
Svefnherbergin eru tvö
Íbúðin er með tvö svefnherbergi, sem hvort er með Queen size rúmi og góðum skápum með stórum speglum. Annað svefnherbergið er með en-suite baðherbergi. Einnig er góður svefnsófi í stofunni með góðri dýnu. Svefnsófinn rúmar vel tvo fullorðna. Sængur, koddar og rúmföt fylgja og einnig er samanbrjótanlegt barnaferðarúm með góðri dýnu, sæng og kodda fyrir ungabarnið.
Baðherbergin eru tvö
Tvö baðherbergi eru í íbúðinni, bæði með góðri sturtu, góðri innréttingu með skápaaðstöðu og skúffum. Ofanáliggjandi baðvaskar á fallegri steinborðplötu. Hárblásari er á öðru baðherberginu. Baðhandklæði fylgja íbúðinni en gestir þurfa sjálfir að koma með eigin handklæði til sólbaða, fyrir sundlaugina og strandferðir.
Fyrirkomulag íbúðarinnar og þaksvalir
Íbúðin sjálf er björt og falleg með gólfsíðum gluggum í öllum herbergjum. Komið er inn í hol og alrými með stofu, borðstofu og eldhúsi. Að auki eru tvö svefnherbergi, tvö baðherbergi og svalir.
Í íbúðinni er ókeypis Wifi, loftklæling í öllum herbergjum, ryksuga, þvottavél, litlar þvottasnúrur, straubretti og straujárn.
Íbúðin er á efri hæð með sér inngangi utan frá. Íbúðinni tilheyra stórar þaksvalir með útisófasetti, matarborði, gasgrilli og tveimur sólbekkjum, þar sem hægt er að njóta góða veðursins og hafa það huggulegt. Á þaksvölunum er einnig útisturta. Frábært útsýni er af þaksvölunum.
Nágrennið og þjónusta allt í kring
Íbúðin er í mjög fallegu hverfi, sem að hluta er enn í uppbyggingu. Um 5 mínútna ganga er út í nýlega og mjög góða Consum matvöruverslun sem býður uppá flott úrval ferskvöru í kjöt-, fisk-, osta- og áleggsborði. Nýbakað brauð fæst á hverjum degi. Fjöldi góðra veitingastaða eru í um 10 – 25 mínútna gönguradíus.
Í nágrenninu er flottur 18 holu golfvöllur, einn vinsælasti mini golfvöllurinn á Torrevieja svæðinu og vatnsrennibrautargarður fyrir krakkana.
Laugavegurinn svokallaði á þessu svæði er í 25 mínútna göngufjarlægð í gegn um skemmtilegt íbúðahverfi. Á Laugaveginum er mikið af skemmtilegum veitingastöðum, verslanir og alls kyns þjónusta, eins apótek, hárgreiðslustofur, hjólaleiga og fleira. Heilsugæsla er rétt neðan við Laugaveginn, nær íbúðinni.
Stutt er að fara í góðar verslunarmiðstöðvar. Habaneras er nær en þangað er hægt að hjóla á hjólastígum. Þangað er um 10 mínútna akstur (mjög bein og einföld leið). Svo er það Zenia verslunarmiðstöðin sem er lengra í burtu. Zenia er bæði nýrri og stærri en þangað er um 20 mínútna akstur.
Strönd og markaður
Um 10 mínútna akstur er á ströndina í Guardamar sem er mjög falleg strandlengja aðeins NA af Rojales. Stutt er á sítrónumarkaðinn sem opinn er alla sunnudaga, allt árið um kring. Á sítrónumarkaðnum svokallaða er hægt að finna allt milli himins og jarðar en þar er mjög flottur matarmarkaður. Hvað er huggulegra en að fara heim með heilan poka af glænýjum lífrænum appelsínum í morgunsafann, á verði sem við trúum varla að sé rétt.