Nánari lýsing

Stofa, borðstofa og eldhús

Á fyrstu hæð er góð stofa með svefnsófa ásamt borðstofu – loftkæling er í stofu og eldhúsi.   Í húsinu er SMART TV sjónvarp með áskriftarpakka af breskum stöðvum og fjölda mörgum spænskum,  háhraða WiFi internet í gegnum ljósleiðara og BOSE Soundbar með Bluetooth tengi til að spila tónlist.
Út frá stofunni er hægt að ganga beint út í garðinn umhverfis húsið, þar eru 4 sólbekkir, 10 manna borð og stólar, sólhlíf, markísa og úti gashitari fyrir vorin og haustin.
Rúmgott eldhús er á 1. hæð, bjart og vel búið með tveimur ísskápum með frysti, örbylgjuofni, Dolce Gusto kaffivél, blandara, vöfflujárni, hraðsuðukatli, brauðrist og uppþvottavél.  Borðbúnaður er fyrir 10 manns og matarstóll fyrir barn.

Svefnherbergin eru þrjú

Herbergi á fyrstu hæð er rúmgott fjölskylduherbergi með svefnplássi fyrir 4, þar er hjónarúm, koja og innangengt inná sér baðherbergi.
Herbergi nr. 2 er á annarri hæð, með hjónarúmi, skápum með skúffum, og útgengi á litlar svalir með sjávarútsýni.
Herbergi nr. 3 er á annarri hæð, með tveimur einstaklingsrúmum, skápum með skúffum og útgengi á rúmgóðar svalir með sjávarútsýni, á svölum eru 2 sólbekkir, borð og stólar.
Öll svefnherbergi eru með loftkælingu og moskító net er í öllum gluggum svo auðvelt er að lofta húsið án þess að fá flugur inn.  Sængur, koddar og rúmföt fylgja og einnig er gott barnaferðarúm með góðri dýnu, sæng og kodda fyrir ungabarnið.

Baðherbergin eru tvö

Á 1. hæð er stórt baðherbergi með salerni, handlaug og baðkari með sturtuaðstöðu. Einnig er þvottavél, ryksuga og önnur hreinlætisáhöld. Hárblásari og sléttujárn er í húsinu.
Á 2. hæð er gott baðherbergi með salerni, handlaug, innréttingu og hillum og rúmgóðri sturtu.
Baðhandklæði fyrir gesti fylgja í leigu en gestir eru þó beðnir að koma með sín eigin handklæði til sólbaða og til að taka með niður á strönd.

Svalir, garður og einkasundlaug

Á annarri hæð eru tvennar svalir út frá svefnherbergjum með æðislegu útsýni til sjávar.
Á þriðju hæð hússins eru mjög góðar svalir með útsýni til sjávar, þar eru 2 sólbekkir, borð og 4 stólar.
Mjög stór einkagarður er í kringum Sólvelli með einkasundlaug og útisturtu. Einnig eru útihúsgögn, 10 manna borð með stólum og annað 4ja manna borð með stólum, 8 sólbekkir, útihitari, snúrur og gott Weber 3200 gasgrill.
Út frá bakgarðinum er síðan hlið til að fara yfir í stóra sameiginlega sundlaugargarðinn, þar er stór sundlaug með barnalaug, sturtur og gott pláss fyrir sólbekki.
Í húsinu eru fullt af bókum fyrir börn og fullorðna, spil og leikföng. Einnig eru strandstólar, sólhlíf og kælibox fyrir strandferðirnar sem gestir geta notað í fríinu.

Aðrar eignir stutt frá

Við erum með nokkrar íbúðir, raðhús og einbýlishús í Lomas de Cabo Roig hverfinu til leigu, svo lítið mál ef hópurinn er stór að bóka fleiri ein eitt hús og rölta síðan á milli.