Nánari lýsing

Toledo 22

Glæsilegt einbýlishús með fallegum garði á stórri einkalóð í rólegu hverfi í Qiudad Quesada.
Gengið er inn í fallega og bjarta stofu með sófasetti og smart TV með fullt af stöðvum m.a. RÚV.  Frá stofu er síðan opið inní borðstofuna og þaðan er gengið inní eldhúsið.  Eldhúsið er bjart og vel búið með ísskáp, örbylgjuofni, kaffivél, hraðsuðukatli, brauðrist, blandara og góðu skápaplássi, þar finna gestir allt þetta helsta til matargerðar.
Í kringum húsið er mjög stór garður með góðri einkasundlaug og frábær aðstaða til að borða úti og njóta blíðunnar á Spáni.  Útigrill aðstaða með hlöðnu kolagrilli, borði, stólum og markísu er á svölum út frá eldhúsinu. Gengið er niður nokkar tröppur að sundlauginni og þar er gott svæði með sófasetti, barborði, útieldhúsi með gasgrilli og ísskáp, matarborði með stólum og sólhlífum til að fá skugga frá sólinni.

Húsið er gríðarlega skemmtilegt fjölskylduhús sem hefur nýlega verið tekið í gegn með frábærri aðstöðu inni sem úti.  Húsið er reyklaust og ekki er heimilt að vera með gæludýr.  Matvöruverslanir, veitingastaðir og „Laugavegurinn“ eru í  ca. 15 mín göngufjarlægð frá húsinu, einnig er stutt að skreppa á Sítrónumarkaðinn sem er haldinn alla sunnudaga. Frábær vatnagarður Aquapark Rojales er stutt frá húsinu.  Það tekur ca. 10-15 mín að keyra til Torrevieja þar er m.a. Habaneras verslunarmiðstöðin, Aquapolis vatnagarðurinn, markaður á föstudögum og margt fleira.  Margir golfvellir eru á svæðinu en La Marquesa golfvöllurinn er í ca. 7 mín aksturfjarlægð frá húsinu.

Svefnherbergin eru fjögur

Rúmgott hjónaherbergi með góðu skápaplássi, loftkælingu, hjónarúmi og innangengt inná sér baðherbergi með sturtu.
Annað rúmgott herbergi með vönduðum svefnsófa, góðum skápum og loftkælingu.
Þriðja herbergið er einnig rúmgott með tveimur einstaklingsrúmum sem hægt er að færa saman, loftkælingu og góðu skápaplássi.
Fjórða herbergið er í kjallara húsins og er gengið þar inn að utanverðu, þar er hjónarúm, kommóða og vifta.

Baðherbergin eru þrjú

Ný uppgert baðherbergi með sturtu, salerni og innréttingu með handlaug er innaf hjónaherbergi.
Annað rúmgott baðherbergi er á móti stofunni með salerni, baðkari með sturtuaðstöðu og innréttingu með handlaug.
Einnig er auka salerni ásamt handlaug í sér húsi úti í garði, þar má einnig finna þvotthús.
Baðhandklæði fyrir hvern gest fylgir, einnig eru sérstök strandhandklæði til taks fyrir gesti til sólbaða og til að taka með niður á strönd.